25. mars 2022

Aðstöðustjórnun lykill að bættri sjálfbærni

Aðstöðustjórnun er ný þjónustulína hjá VSÓ Ráðgjöf síðan vorið 2021. Ráðgjöfin snýst um aðlögun vinnuaðstöðu og þjónustuþarfa hennar að kröfum kjarnastarfseminnar og starfsfólki fyrirtækja. Hún bætist þar með við fjölda þjónustulína verkfræðistofunnar, sem aðstoðar viðskiptavini við að bæta sjálfbærni í þeirra rekstri.

Matthías Ásgeirsson, byggingarverkfræðingur hjá VSÓ Ráðgjöf, segir umhverfisáhrif atvinnuhúsnæðis vera gríðarleg. Talið er að uppbygging og rekstur atvinnuhúsnæðis sé ábyrgt fyrir um 40 prósent af orkunotkun og 33 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda, auk óbeinna áhrifa sem aðliggjandi innviðir og samgöngukerfi hafa.

Af þessari losun má rekja 88 prósent til endurnýjunar, breytinga, viðhalds og orkunotkunar, sem eru lykilhlutverk og ábyrgð aðstöðustjórnunar. Vegna þeirrar umhverfisvænu orku sem Ísland er svo lánsamt að hafa aðgang að, er þetta hlutfall í kringum 42 prósent hér á landi ef horft er á meðaltal allra bygginga, þar sem atvinnuhúsnæði er 35 prósent, samkvæmt nýútgefinni skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um kolefnislosun íslenskra bygginga. Þetta er talsvert hærra hlutfall en margir gerðu ráð fyrir og kallar á faglega aðferðafræði til þess að leysa þennan vanda.

Matthías segir aðstöðustjórnun aðstoða húseigendur og leigutaka við að draga úr þessari losun án þess þó að skerða skilvirkni vinnustaðarins eða vellíðan starfsmanna. „Með því að samræma þarfir fólks, ferla og vinnustaðinn á umhverfisvænan hátt styðst VSÓ Ráðgjöf við viðurkennda aðferðafræði og „best-practice“ til þess að fínstilla aðstöðuna að kröfum starfseminnar með umhverfisvænum hætti.

Horft er til ýmissa hliða til þess að ná því markmiði, til dæmis hámörkun á rýmisnýtingu, með vinnustaðaskipulagi sem tekur mið af rekstrarþörfum án þess að draga úr þægindum starfsmanna, aðlögun orkunotkunar að álagsþörfum reksturs, sjálfvirkrar aðlögunar loftræsi- og upphitunarkerfa að notendaþörfum, efnisvals með áherslu á endurnýtingarmöguleika, hagræðingar og minnkunar á sóun með hentugri samnýtingu mismunandi leigutaka í sömu eign.“

Breyttar vinnuvenjur vegna áhrifa Covid-19 heimsfaraldursins hafa að sögn Matthíasar kallað á aðlögun vinnuaðstöðu og búið til tækifæri til aukinnar sjálfbærni. „Talið er að hægt sé að lækka kolefnisspor þekkingarstarfa um 30 prósent með fækkun vinnuferða og endurskipulagningu vinnustaðarins með tilliti til fjarvinnumöguleika. Starfsfólk gerir í dag meiri kröfur um hvar og hvernig það vinnur. Aðstöðustjórnun styður við aðlögun að nýjum möguleikum og væntingum með faglegum hætti.“

Alþjóðlegar kannanir benda til þess að fjárfestingar- og fasteignafélög séu að fara að stórauka fjárfestingar í umhverfisvænu atvinnuhúsnæði og telji leigutaka reiðubúna að borga hærri leigu fyrir meiri gæði og með væntingar um minni rekstrarkostnað.

Á Íslandi má skynja hreyfingu í sömu átt en þó mun hægari, segir Matthías, sem telur ofangreinda niðurstöðu um umhverfisáhrif atvinnuhúsnæðis ýta á þessa þróun. „Hvaða húsnæði sem horft er til þá tryggir aðstöðustjórnun að það sé ekki bara umhverfisvænt heldur sjálfbært, með því að uppfylla einnig kröfur starfseminnar og fjármögnunargetu húseiganda og leigutaka. Hún styður einnig við ákvarðanatöku og ráðgjöf um vottun á sjálfbærni atvinnuhúsnæðis í rekstri eins og BREEAM In-use eða annarra sambærilegra vottunarkerfa, segir Matthías Ásgeirsson, byggingarverkfræðingur hjá VSÓ Ráðgjöf.

Viðtalið við Matthías Ásgeirsson, byggingarverkfræðing og aðstöðustjórnunarráðgjafa hjá VSÓ, birtist í Fréttablaðinu 25. mars 2022.