25. maí 2021

Rafskútur og umferðaröryggi

Skýrslan „Rafskútur og umferðaröryggi“  var gefin út á dögunum en um er að ræða afrakstur rannsóknar VSÓ Ráðgjafar sem var styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborg. Áður hefur VSÓ Ráðgjöf útbúið veggspjald um helstu reglur sem gilda á rafskútum.

Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga hvaða áhrif rafskútur hafi á umferðaröryggi og hvaða þættir það eru sem helst ógna öryggi rafskútunotenda sem og annara vegfarenda í umferðinni.   

Undanfarin ár hafa rafskútur verið að ryðja sér braut sem nýr virkur ferðamáti. Ýmislegt þarf að hafa í huga þegar nýir ferðamátar eru kynntir til leiks því þeir geta á stuttum tíma orðið gífurlega vinsælir, eins og hefur sýnt sig með rafskútum. Tæplega tvö þúsund rafskútur eru til útleigu á höfuðborgarsvæðinu í dag og hafa rafskúturnar einnig dreift sér, í minna magni, til bæjarfélaga á landsbyggðinni. Rafskútum í einkaeigu hefur sömuleiðis fjölgað mikið og er t.d. rafskútu að finna á 12% reykvískra heimila. Flestir rafskútunotendur kjósa að ferðast á hjólareinum og -stígum, fjarri umferð bíla. Í íslenskum könnunum segjast 44% hafa prófað rafskútur og af þeim sem nota þær reglulega segjast 12% vilja nota þær á götum þar sem hámarkshraði er 30 km/klst eða lægri, sem er þó ekki heimilt í dag.  

Öllum ferðamátum fylgir ákveðin áhætta, en slysatíðni vegna rafskúta er mismunandi eftir aðstæðum í hverju landi. Erlendis hafa verið gefnar út tölur allt frá 10 upp í 136 slys á hverja milljón ekna km. Sumarið 2020 voru 149 sem leituðu sér aðhlynningar á bráðamóttöku Landsspítalans og mátti rekja stóran hluta slysa til ofsaaksturs, aksturs undir áhrifum áfengis og vímuefna, ökumanns sem missir jafnvægi eða vegna ójafns yfirborðs. Orsök margra slysa á rafskútum má rekja til yfirborðs, sem ýtir undir mikilvægi uppbyggingar innviða fyrir rafskútur í sveitarfélögum. 45% þeirra sem leituðu á bráðamóttöku voru undir 18 ára aldri. 

Sýnt hefur verið fram á að aukin þjálfun og kennsla í notkun rafskúta minnki líkur á slysum, þar sem þriðjungur slasaðra var að prófa rafskútu í fyrsta skipti og önnur 30% slasaðra höfðu notað rafskútu 1-9 sinnum áður. Þá segir frönsk rannsókn að um 40% notenda rafskúta í frönskum bæjum séu erlendir ferðamenn, sem eru að öllum líkindum vanir annarri umferðarmenningu og umferðarreglum. Umferðarreglur á rafskútum eru breytilegar eftir löndum en flest eru þau á þann veg að hraðinn eigi að vera takmarkaður við 20-25 km/klst og að ljósanotkun sé mikilvæg. 

Til að tryggja öryggi notenda rafskúta og annarra vegfarenda er ýmislegt hægt að gera, annaðhvort með lögum og reglum eða vinsamlegum tilmælum. Lög og reglur geta t.d. verið innleiðing lágmarksaldurs á rafskútur, lækkun hámarkshraða, lokun á þjónustu rafskútuleiga á föstudags- og laugardagskvöldum, auknar kröfur á hlífðarbúnað, hvar megi aka rafskútum, stærð og aldur notenda eða stighækkandi sektir fyrir brot á umferðarlögum. Á meðan vinsamleg tilmæli gætu meðal annars verið að nota hjólabjöllur, negld dekk á veturnar eða „pop-up“ samkomur þar sem kennt er á rafskútur á öruggu svæði t.d. á lokaðri götu. Fyrirtæki sem leigja út rafskútur hafa einnig ítrekað farið í umbætur á rafskútum sínum til að auka öryggi notenda og endingu tækja líkt og myndin hér til hliðar sýnir.

Á rafskútum í útleigu eru iðulega GPS mælar sem geta staðsett rafskúturnar með allt að 2,5 metra nákvæmni. Þar sem rafskúturnar geta deilt staðsetningu sinni með eigendum sínum þá er hægt að notast við stafræna girðingu, sem hefur þann eiginleika að hægt er að banna eða hægja á umferð rafskúta þegar komið er inn á fyrirfram ákveðið svæði. Jafnframt má hindra að þeim sé lagt á ákveðnum stöðum og veita afslátt af ferð sé rafskútu skilað á tilteknum stöðum t.d. þar til gerð rafskútustæði. Hér til hliðar má sjá dæmi um slíkt rafskútustæði.

Í fjölmörgum borgum eru í gildi takmarkanir á því hversu margar rafskútur mega vera í útleigu innan borgarmarkanna í senn og víða í borgum er reglum um notkun þeirra óhikað breytt m.t.t. samhliða því að meiri reynsla kemst á notkun og rafskúta og afleiðingar rafskútuumferðar. 


Nánari upplýsingar veitir:

Ragnar Þór Þrastarson 
Iðnaðar- og rekstrarverkfræðingur M.Sc.
ragnar@vso.is
s: 585 9208