Nýjar skíðalyftur í Bláfjöllum
Biðraðir í lyftur í Bláfjöllum ættu núna að heyra sögunni til því tvær nýjar skíðalyftur, Drottningin og Gosinn, hafa verið opnaðar. Um er að ræða tvær nýjar fjögurra sæta stólalyftur sem hvor um sig hefur flutningsgetu upp á 2.400 manns á klukkustund. Nýi Gosinn er t.a.m. 450 metra langur og ekki tekur nema rétt rúma mínútu að komast með honum upp á topp.
Gömlu lyfturnar voru orðnar úr sér gengnar og svo gamlar að erfitt var orðið að fá í þær varahluti. Gamli Gosinn hefur af þessum sökum ekki verið í notkun síðan 2018 og núna hafa bæði gamli Gosinn og gamla Drottningin verið lagðar niður og nýjar lyftur tekið við.
Til stóð að nýi Gosinn yrði opnaður í nóvember og Drottningin ári síðar en vegna hagstæðra veðurskilyrða og góðrar samvinnu allra sem að verkefninu komu náðist að opna báðar lyfturnar fyrir lok árs 2022. Ekki aðeins lauk verkefninu á undan áætlun, heldur einnig innan þess kostnaðarramma sem því var sett.
Endurbótum í Bláfjöllum er þó ekki með öllu lokið ennþá því næst á dagskrá er að koma þar upp aðbúnaði og kerfum fyrir snjóframleiðslu sem áætlað er að verði tilbúin til notkunar haustið 2023.
Hlutverk VSÓ í verkefninu:
- Verkefnisstjórn.
- Umsjón með leyfisveitingum, samráð við hagsmunaaðila og yfirvöld.
- Gerð útboðsgagna fyrir lyftur og snjóframleiðslukerfi.
- Faglegt eftirlit með framkvæmdum.
- Fjárhagslegt eftirlit og rekstur verksamninga.
Verktími: 2015-2023.
Verkkaupi: Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins.