9. mars 2020

Græna leiðin í byggingum

Til að vekja athygli á vistvænni hönnun stóð VSÓ  fyrir málstofu þann 28. febrúar s.l. þar sem umhverfisvænar grænar lausnir fyrir byggingariðnaðinn voru kynntar fyrir áhugasömum aðilum. Málstofan var vel sótt og heppnaðist vel í alla staði.  VSÓ vill því þakka þeim sem mættu kærlega fyrir þátttökuna og fyrir að sýna þessu mikilvæga málefni áhuga.  

VSÓ Ráðgjöf skoðar umhverfisáhrif mannvirkja og býður upp á ýmsar lausnir til að auka sjálfbærni og draga úr loftslagsáhrifum, allt frá hönnun og skipulagi til niðurrifs. Öll þjónustusvið VSÓ koma að vistvænni hönnun því besta leiðin til þess að ná umhverfismarkmiðum er að tryggja að ráðgjafar og hönnuðir vinni saman að heilstæðum lausnum.

Við hjá VSÓ hönnum byggingar m.t.t. þess að þær hafi  sem minnsta kolefnislosun og þar af leiðandi lágmarks kolefnisspor. Við setjum skýr markmið strax í upphafi hönnunarferils til þess að lágmarka innbyggða kolefnislosun sem og kolefnislosun rekstrar.

Vistferilsgreining
Til þess að lágmarka kolefnislosun bygginga almennt er nauðsynlegt að framkvæma vistferils greiningu á hönnunarstigi. Vistferlisgreining felst í því að skoða kolefnislosun við hönnun, uppbyggingu, afnot, viðhald og loks niðurrif byggingar. Vistferlisgreiningin aðstoðar við að auðkenna þau atriði þar sem er hægt að ná mestum árangri í kolefnislosun. VSÓ framkvæmir vistferilsgreiningar á vörum, þjónustu, byggingum og mannvirkjum.

Vistvænar umhverfisvottaðar byggingar
Vistvænar byggingar nota minni orku, minna vatn og náttúrulegar auðlindir. Þær hafa í för með sér minni úrgang og sóun auk þess sem þær eru heilbrigðari fyrir íbúa miðað við venjulegar byggingar. Vistvænar byggingar krefjast iðjulega umhverfisvottunar til þess að staðfesta að vistvænar kröfur hafa verið uppfylltar. BREEAM er í dag algengasta vistvottunarkerfið fyrir byggingar í heiminum. Vottunin byggist á stigakerfi þar sem byggingar þarf að ná ákveðnum lágmarksfjölda stiga til að hljóta BREEAM vottun. Einkunn er svo gefin miðað við fjölda stiga. VSÓ  býður upp á ráðgjöf við hönnun samkvæmt BREEAM en meðal starfsfólks VSÓ eru BREEAM matsmenn bæði fyrir byggingar og skipulag.

 

Kolefnislosun bygginga
Kolefnislosun er óhjákvæmileg í meðhöndlun og framleiðslu á byggingarefnum en sum byggingarefni hafa minni umhverfisáhrif en önnur. Rannsóknir hafa sýnt að það er hægt að draga verulega úr losun kolefnis með því að velja timbur í stað t.d. steinsteypu og að það er hægt að draga úr kolefnisspori steypu með því að notast við aukaafurðir eins og t.d. flugösku í stað sements að hluta. Eins er mikilvægt að skoða framleiðsluferlið og uppbyggingu. Vörur sem eru framleiddar með vélum sem nota endurnýjanlega orku losa talsvert minni kolefni en ef vélar eru knúnar af jarðefnaeldsneyti. Þetta á einnig við á verkstað þar sem það er vert að skoða og lágmarka notkun orkufrekara vinnuvéla. VSÓ Ráðgjöf metur mismunandi lausnir til þess að draga úr innbyggðri kolefnislosun.

Kolefnislosun rekstrar
Lágmörkun á kolefnislosun rekstrar snýst að miklu leyti um það að draga úr orkunotkun byggingar. Til þess að tryggja góða orkunýtingu er nauðsynlegt að kanna eðlisfræðilegt atferli og orkubúskap byggingar snemma á hönnunarstigi. Til þess að skoða orkubúskap byggingarhönnunar notum við hermunarhugbúnaðinn SIMIEN. SIMIEN framkvæmir dýnamíska orkuútreikninga samkvæmt viðurkenndum stöðlum með að nota staðbundin veðurgögn. Niðurstöður þessara orkuútreikninga sýna frammistöðu byggingarhönnunar í formi orkunotkunar og orkubúskaps á ársgrundvelli. Með þessu er hægt að tryggja hentugar útfærslur sem tryggja góð innanhússloftgæði og lágmarka heildarorkunotkun byggingarinnar. Til þess að mæta markmiðum í kolefnislosun á rekstrartíma er nauðsynlegt að framkvæma slíkar greiningar og búa svo yfir þekkingu til þess að hanna lagna- og loftræsikerfi ásamt öðrum tæknikerfum samkvæmt kröfum.

Greinina skrifaði Sigríður Ósk Bjarnadóttir, byggingarverkfræðingur Ph.D