20. nóvember 2019

Húsnæðismál

Húsnæðisáætlanir á Skipulagsdeginum

Sverrir Bollason verkfræðingur hjá VSÓ Ráðgjöf hélt erindi á Skipulagsdeginum 8. nóvember síðastliðinn og fór yfir reynslu sína af gerð húsnæðisáætlana. Skipulagsdagurinn er árleg ráðstefna um skipulagsmál sem Skipulagsstofnun stendur að í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Húsnæðisáætlanir geta verið mjög gagnleg tæki fyrir sveitarstjórnir að stýra þróuninni í sínu sveitarfélagi og gefa fjölbreyttum hópi hagsmunaaðila innsýn í þróun húsnæðismála á hverjum stað.

Notadrjúgt skjal

Verktakar og almenningur fá betri yfirsýn yfir heildarþróunina í húsnæðismálum, kjörnir fulltrúar geta betur mótað afstöðu sína og embættismenn sveitarfélagsins hafa skýra stefnu að vinna eftir þegar húsnæðisáætlun liggur fyrir. Þá eru húsnæðisáætlanir forsenda þess að sækja um stofnframlög fyrr almennum leiguíbúðum og almennt grundvöllur fyrir samtölum við Ríkið um húsnæðismálin á hverjum stað. Meðal sveitarfélaga sem VSÓ Ráðgjöf hefur aðstoðað við húsnæðisáætlanagerð er Hveragerði en bæjarstjórinn þar, Aldís Hafsteinsdóttir sem jafnframt er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, hélt erindi fyrr um daginn þar sem hún nefndi það gagn sem hún taldi sitt sveitarfélag hafa haft af húsnæðisáætlunargerðinni.

Upplýsingar forsenda góðra ákvarðana

Sverrir fór yfir ýmis gögn og upplýsingar sem mætti bæta aðgengi að fyrir sveitarfélögin til að geta gert vandaðri húsnæðisáætlanir. Þar má t.d. nefna upplýsingar um heimilisgerð í hverju sveitarfélagi og upplýsingar um tekjur og eignir í samhengi við ákvæði laga um almennar leiguíbúðir. Þá fór hann einnig yfir áralanga baráttu sína fyrir því að geta nálgast samtímagögn um byggingaframkvæmdir í hverju sveitarfélagi. Íbúðalánasjóður hefur undanfarin ár lyft grettistaki í miðlun upplýsinga um ýmsa þætti húsnæðismarkaðarins, sér í lagi leigumarkaðarins sem hefur komið í ljós að er stærri en mætti halda.

Ólíkir hópar – ólíkar nálganir

Í stefnumörkun um húsnæðismál þarf að taka tillit til bæði þarfa og getu fólks. Sumpart skortir þekkingu á aðstæðum sumra hópa í samfélaginu, til dæmis útlendinga sem þó standa að baki nær allri fjölgun íbúa landsins undanfarin ár. Frá árinu 2010 hefur heildarfjöldi erlendra ríkisborgara sem hefur flutt til og frá landinu verið meira en 80.000 manns en lítið liggur fyrir um húsnæðismál þessa hóps sérstaklega. Könnun á notkun stofnframlaga á landsbyggðinni bendir til að þörf hafi verið á fjárfestingu í húsnæði fyrir fatlað fólk sem þyrfti að fylgjast með hvernig hafi og muni þróast. Þá eru húsnæðismál unga fólksins ávallt umræðuefni sem mætti rannsaka betur.

Greinina skrifaði Sverrir Bollason, umhverfisverkfræðingur M.Sc. 
Hann veitir fúslega nánari upplýsingar ef óskað er.

Erindi Sverris má sjá hér og byrjar það á 1:58:00 https://livestream.com/accounts/5108236/events/8884118/videos/198717839