15. nóvember 2016

Ný menningarmiðstöð í Drøbak tekin í notkun

Um miðjan september var tekin formlega í notkun ný menningarmiðstöð í bænum Drøbak í Noregi sem VSÓ Ráðgjöf sá um verkfræðilega hönnun á.  Um er að ræða byggingu sem hýsir í senn skrifstofur og kapellu kirkjuráðsins á svæðinu, fundarherbergi og fjölnota tónleikasal sem tekur 400 manns í sæti. Húsið kallast Smia og er ætlað til fjölbreyttrar notkunar bæði tónlistar og annarra viðburða.

Þorbergur Karlsson byggingaverkfræðingur segir að VSÓ hafi fengið þetta verkefni 2012 og að það hafi verið ánægjulegt en krefjandi ferli þar sem þurfti ýmsar sérlausnir.  Hann segir að við hönnun og byggingu hússins hafi verið lögð áhersla á aðhald og að allar útfærslur væru eins hagkvæmar og frekast væri unnt. Á sama tíma hafi mikið verið lagt í hönnun hljóðvistar í tónleikasal, en um hana sá Trivium, undirverktaki VSÓ. Annar íslenskur undirverktaki, VSI sem í dag er hluti af verkfræðistofunni Lotu sá um brunavarnir „Ég held mér sé óhætt að fullyrða að útkoman sé mjög góð og að það ríki almenn ánægja með hvernig til tókst,“ segir Þorbergur.

Tekist á við „kvikkleir“

Þorbergur segir að menn hafi þurft að glíma við ýmsar verkfræðilegar áskoranir á byggingartímanum.  Þar á meðal varð vart við svokallaðan „kvikkleir“ þegar byrjað var að vinna við undirstöður hússins. „Kvikkleir“ er saltur leir sem áður hefur verið sjávarbotn. Komi farg eða hreyfing á þessi jarðlög geta þau gefið sig við ákveðnar aðstæður og breytast þá í fljótandi eðju. Dæmi eru um mjög alvarleg atvik í Noregi þar sem stórir jarðflekar hafa flotið af stað með húsum og öðrum mannvirkjum og hefur fólk týnt lífi í slíkum hamförum.  „Við urðum vör við „kvikkleir“ þegar verið var að reka niður stálþil og í tengslum við vinnu við undirstöður hússins. Með skjótum viðbrögðum jarðtækniráðgjafa VSÓ og snörum handtökum verktaka á staðnum  tókst að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og leysa það mál á mjög farsælan hátt,“segir Þorbergur.

Drøbak er bær í sveitarfélaginu Frogn sunnan og austan við Osló í Akershus fylki.  VSÓ er með ýmis fleiri verkefni í Akershus þar á meðal kirkju- og íbúðabyggingar í Jessheim. Ennfremur skólabyggingu í Porsgrunn í Telemark fylki  og gatna-og byggðatækniverkefni fyrir sveitarfélagið Holmestrand í Vestfold fylki.