5. nóvember 2015

Rannsóknarráðstefna Vegagerðarinnar

Starfsfólk VSÓ fékk úthlutað styrkjum úr Rannsóknarsjóð Vegagerðarinnar til að vinna að níu verkefnum á þessu ári.  Þar af voru fjögur kynnt á Rannsóknarráðstefnunni föstudaginn 30. október.

Umferðarflæði hringtorgs bætt með ljósastýringu

gretar14Grétar Mar Hreggviðsson á Samgöngusviði kynnti verkefni sitt um ljósastýringu á hringtorgi við Reykjanesbraut og Lækjargötu í Hafnarfirði. Verkefnið fólst í að meta hvort það mætti bæta afkastagetu hringtorgsins með ljósastýringu á einstökum örmum. Það geta komið upp vandamál þegar umferð um einn arm hringtorgsins tekur yfir alla aðra strauma. Sú er raunin við hringtorgið á mótum Reykjanesbrautar og Lækjargötu þar sem umferðin af Lækjargötunni verður það mikil á morgnana að umferðin sunnan af Reykjanesbraut kemst ekki að. Með ljósastýringu á Lækjargötunni var hægt að minnka verulega heildartöf á gatnamótunum.

Hér má sjá kynningu Grétars

Umhverfisvæn eyðing gróðurs í vegköntum

kristin-thrastarKristín Þrastardóttir á Umhverfis- og skipulagssviði kynnti athugun umhverfisvænni eyðingu gróðurs í vegköntum. Gróður við vegi getur bæði verið hvimleiður og ógn við öryggi en þó ber að forðast notkun eiturefna við eyðingu gróðurs. SPUMA er sú aðferð sem var rannsökuð en hún byggir á því að heitu vatni er sprautað á gróðurinn og froða úr lífrænum, niðurbrjótanlegum efnum notuð til að halda varmanum við nógu lengi til að drepa gróðurinn. Niðurstaðan var sú að nýta má þessa aðferð á tiltekna staði.  Aðferðin virkar vel, þó hún sé nokkuð seinleg, og er góð viðbót við þær aðferðir sem fyrir eru.  Líkt og aðrar aðferðir hentar hún illa í roki og ringningu. Nota má SPUMA á bæði grófan og stórgerðan gróður s.s. skógarkerfil en einnig fíngerðari gróður á borð við gras.

Hér má sjá kynningu Kristínar

Sjálfakandi bílar,  rýni aðstæðna á Íslandi

sverrir-bollaSverrir Bollason greindi frá athugunum sínum á sjálfakandi bílum. Sjálfakandi bílar eru í reynd komnir á göturnar þó með eitthvað takmarkaðri virkni sé og það styttist mjög í að alsjálfvirkir bílar sjáist í almennri umferð. Lög og reglur þurfa að taka mið af þessari þróun og mikilvægt er því að fylgjast með þróuninni úti í heimi. Fjallað hefur verið um verkefnið í sjónvarpi og útvarpi.

Hér má sjá kynninguna frá Sverri
Umfjöllun á Bylgjunni 30.10.2015

Veruleg umhverfisáhrif, eru þau eins?

audur-13Auður Magnúsdóttir á Umhverfis- og skipulagssviði kynnti rannsókn sína á verulegum umhverfisáhrifum. Markmiðið var að greina frá því hvað teljist veruleg umhverfisáhrif þegar gert er mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Ýmsir þættir geta haft áhrif á það hvað geri áhrif á einstaka umhverfisþætti verulega svo sem umfang framkvæmda, staða verndar, varanleiki, hvort um óraskað land sé að ræða eða hvort að um fágætt fyrirbæri sé að ræða. Þá er sýnileiki einnig áhrifaþáttur. Niðurstöður benda til að veruleg áhrif séu ekki skilgreind með sama hætti eftir framkvæmdum, tímabilum eða umhverfisþáttum.

Hér má sjá kynningu Auðar

Á síðu Vegagerðarinnar má sjá nánari upplýsingar um efnið um var fjallað á ráðstefnunni

Rannsóknarráðstefna Vegagerðarinnar 2015