Nýi Landspítalinn við Hringbraut, Meðferðarkjarni

Meðferðarkjarni Landspítalans er eitt stærsta og flóknasta hönnunarverkefni sem ráðist hefur verið í hérlendis. Byggingin sem mun hýsa það sem flestir myndu skilgreina sem hefðbundna spítalastarfsemi verður á sex hæðum auk tveggja hæða neðanjarðar, alls um 58 þúsund fermetrar. Starfsemin sem fara mun fram í meðferðarkjarnanum er í dag dreifð um nokkrar byggingar á höfuðborgarsvæðinu en nýja byggingin mun m.a. hýsa bráðamóttöku, skurðdeildir, hjarta- og æðaþræðingardeild, gjörgæslu, myndgreiningu, smitsjúkdómadeild, legudeildir og flestar aðrar stærri einingar hefðbundinnar sjúkrahússtarfsemi.

Hönnunarteymið Corpus3 ber ábyrgð á hönnun þessa metnaðarfulla verkefnis en teymið samanstendur af arkitektastofunum Hornsteinum og Basalt ásamt verkfræðistofunum VSÓ Ráðgjöf og Lotu. Auk þeirra koma að hönnuninni ýmsir erlendir sérfræðingar frá Hollandi, Danmörku, Noregi og Englandi.

Flæði og sveigjanleiki

Byggingin mun hýsa hátt í tvöþúsund starfsmenn í ólíkum störfum og það skiptir miklu máli að búa til hvetjandi starfsvettvang fyrir þennan stóra og fjölbreytta hóp starfsmanna sem vinnur við að sinna sjúku fólki og koma því til heilsu. Að auki þurfa þarfir sjúklinganna að vera í öndvegi hvívetna og umhverfið að vera græðandi fyrir þá.

Eðli sjúkrahússtarfsemi er bæði flókin og fjölbreytileg og virkni spítalans ræðst mjög af því hvernig gengur að flytja mannskap, tæki, lyf, lín o.fl. milli sjúkrahúseininga. Flæði um bygginguna þarf að vera eins hagfellt og kostur er og ekki má eyða of miklum tíma og skrefum til einskis við framkvæmd hinna ýmsu hluta og verka. Um leið þarf að huga að ólíkri starfsemi milli hæða og deilda sem fer ekki endilega saman hlið við hlið. Byggingin mun þar að auki tengjast öðrum byggingum á spítalalóðinni s.s. rannsóknarhúsi, göngudeild o.fl. byggingum bæði ofan- og neðanjarðar. Það er því töluverð áskorun að búa til heildstæða vél þar sem allt gengur vel upp en jafnframt ótrúlega spennandi og skemmtilegt verkefni að glíma við.

Það verða gríðarleg viðbrigði fyrir starfsfólk og sjúklinga að hafa nær alla þjónustu undir einu þaki og í því felst mikill sparnaður á fjármunum og tíma fyrir alla aðila auk þess sem öryggi stóreykst. Meðlimir Corpus3-teymisins búa yfir mikilli reynslu sem þeir hafa öðlast bæði hérlendis og erlendis og koma með það veganesti inn í vinnuna en að auki reynir hópurinn að tileinka sér það besta í hönnun erlendis frá. Mikil uppbygging er í gangi á sambærilegum kjörnum í löndunum í kringum okkur og þar er mikil áhersla lögð á að takmarka sóun af öllu tagi t.d. á tíma, efnum, rými, orku og um leið að takmarka vegalengdir innanhúss. Það er í raun sérstök stúdía hvernig hver eining hússins er tekin fyrir og skoðað hvernig starfsfólk hreyfir sig svo hægt sé að lágmarka allar hreyfingar. Sem dæmi þá hefur það sýnt sig að það má fjölga hjartaþræðingum um 1-2 á dag með því að skoða flutning sjúklinga inn í aðgerðarstofuna. Þannig er hægt að flytja biðina nær stofunni, undirbúningurinn styttist fyrir vikið og um leið er hægt að fjölga aðgerðum.

Fyrir utan þessar áherslur á flæði þarf að hafa í huga að starfsemi og tækjabúnaður á spítala þróast og breytist ört. Þess vegna er nauðsynlegt að hanna bygginguna með það í huga að hún sé sveigjanleg og geti tekið breytingum í tímans rás. Þannig getur skurðstofa á einni hæð verið flutt á aðra hæð á morgun. Húsið einkennist því ekki af steyptum veggjum og slíku heldur mun skipulagið innanhúss örugglega taka einhverjum breytingum á milli ára. Þetta er alveg ný hugsun þar sem eldri spítalabyggingar er mun meira niðurnjörvaðar.

Einnig er mikilvægt að huga að öryggisþáttum t.d. varðandi jarðskjálfta og setur það byggingunni ákveðnar skorður. Spítalinn þarf að vera starfhæfur strax eftir stóran jarðskjálfta ef af honum verður og því þarf bæði hönnun byggingarinnar sem og staðsetning hennar á höfuðborgarsvæðinu að taka mið af því. Jarðskjálftaálag við Vífilstaði er t.d. mun meira en við Hringbraut.

Gerðar hafa verið margar greiningar og ýmsir hlutir endurskoðaðir í samstarfi við starfsfólk spítalans og notendur. Um er að ræða notendastýrða hönnun þar sem leitast er við að hafa eins víðtækt samráð við þessa aðila og kostur er en það gerir hönnunarferlið mun markvissara. Ferlið er sannarlega nokkru tímafrekara en fyrir vikið verður hönnunarvinnan hnitmiðaðri og byggingin vonandi betri. Á endanum ber þó hönnunarhópurinn ábyrgð á hvernig til tekst.

Meðferðarkjarninn mun rísa fyrir neðan Barnaspítala Hringsins, þar sem gamla Hringbrautin liggur í dag.

Verktími: 2018-2023.