ÍSLANDSVEGIR eru samheiti hugmyndavinnu og verkefna VSÓ Ráðgjafar sem snúa að ferðamannavegum og ferðamannaleiðum á Íslandi.

VSÓ hefur unnið tvö rannsóknarverkefni fyrir Vegagerðina um ferðamannavegi og ferðamannaleiðir og eru þau bæði aðgengileg hér á vefnum, ásamt öðru áhugaverðu efni sem finna má með því að smella á hlekkina til vinstri hér á síðunni.

Hvað eru ferðamannavegir og ferðamannaleiðir?

Ferðamannavegur er vegur sem felldur er og hannaður inn í landslagið. Sjónarmið ferðaþjónustu eru höfð að leiðarljósi og ferðamanni er gert kleyft að fara um veginn til að njóta landslags og útsýnis.

Ferðamannavegur getur verið „gamli vegurinn“ þar sem nýr vegur hefur létt af umferðinni, gamlir þjóðvegir og tengivegir þar sem vegurinn fer um byggðir og sveitir landsins. Ferðamannavegur getur einnig haft menningar- og sögulegt gildi fyrir það hvar og hvernig hann liggur um landið.

Ferðamannaleið tengir saman áfangastaði sem teljast áhugaverðir og opnar aðgengi að náttúru- eða menningarverðmætum. Leiðin getur verið samsett af nokkrum vegum (vegnúmerum) og gæti einhver þeirra verið ferðamannavegur.

Ferðamannaleiðir

Ferðamannaleið tengir saman áfangastaði sem teljast áhugaverðir og opnar aðgengi að náttúru- eða menningarverðmætum. Leiðin getur verið samsett af nokkrum vegum (vegnúmerum) og gæti einhver þeirra verið ferðamannavegur.

Við skoðun á skipulögðum ferðamannaleiðum erlendis virðast vel heppnaðar ferðamannaleiðir eiga það sameiginlegt að þar er gert ráð fyrir góðum áningarstöðum, myndatökustöðum og bílastæðum svo hægt sé að stoppa til að njóta landsvæðisins.

Markmið ferðamannaleiða er m.a. að stýra umferð um ákveðið landsvæði, oft með því að nýta leiðir sem þegar eru til staðar. Skipulaging ferðamannaleiða felst í því að velja vegi sem teljast öruggir og uppfylla kröfur ferðamanna. Hluti af þeirri skipulagningu er að koma á framfæri nauðsynlegum upplýsingum til ferðamannsins um ástand og þjónustu á leiðinni auk upplýsinga um áfangastaði, veitingaþjónustu, gistingu og afþreyingu. Hafa má í huga að flestir ferðamenn vilja frekar velja sér ferðaleið sem gefur möguleika á einhverskonar hringtengingu.

ferdamannaleidir-vegir-535-3

Ferðamannavegir

Ferðamannavegur er þrengra hugtak en ferðamannaleið og gæti tekið til ákveðins veghluta innan ferðamannaleiðar. Mikilvægt er að ferðamannavegurinn aðlagist landslagi og fari um eftirtektarverðar sveitir eða óbyggðir. Einkenni íslenskra ferðamannavega þarf því að vera að þeir liggi vel í landinu og falli að aðliggjandi umhverfi, eins og margir af eldri þjóðvegum gera.

Í tilfelli nýframkvæmda er það lykilatriði að hönnun, framkvæmd og veghald taki mið af því landsvæði sem vegurinn fer um. Ferðamannavegur þarf að vera fallegt mannvirki sem fellur að umhverfi og rýrir ekki gildi landslagsins. Áningarstaðir, mydatökustaðir og bílastæði í vegjaðri eru mikilvægur hluti ferðamannavegarins þannig að hægt sé að stoppa og njóta umhverfisins. Eins og á ferðamannaleiðum er upplýsingagjöf til ferðamanna um áfangastaði, þjónustu og afþreyingu stór hluti heildarmyndarinnar. Upplýsingaskilti mega þó ekki skyggja á útsýni eða verða til þess að rýra ímynd svæðisins.

Mikilvægt er að ferðamannavegir séu sem fjölbreyttastir. Þeir geta verið í mismunandi vegflokkum, haft mismunandi stíl, og þurfa ekki endilega að vera með bundnu slitlagi eða með öll vatnsföll brúuð. Þeir geta verið hvort sem er á hálendi eða láglendi og um þá geta gilt mismunandi forsendur, s.s. varðandi umferðarhraða o.fl., allt eftir því hvaða svæði þeir liggja um.

Ávinningur

Ferðamannaleiðir og ferðamannavegir þurfa að miða að ávinningi fyrir ferðamanninn og fyrir ferðaþjónustuaðila. Ávinningur getur þó einnig skilað sér út í samfélagið með mörgum og mismunandi hætti t.d. til Vegagerðarinnar og landsvæðanna í heild með mörgum minni skipulags- og uppbyggingarverkefnum.

Ávinningur Vegagerðar

Álag á vegi landsins hefur aukist með árunum. Umferð ferðamanna sker sig að mörgu leyti frá annarri umferð en vegna vanþekkingar á ástandi vegarins er umferð ferðamanna oft hægari og ferðamynstur annað. Þeir hafa ekki þekkingu á umhverfi vegarins og gera aðrar kröfur til upplýsinga og þjónustu.

Með ferðamannavegum er ekki verið að koma með nýjan flokk til viðbótar inn í vegakerfi landsins. Ferðamannavegur gæti á hinn bóginn verið ákveðinn „gæðarammi“ ofan á aðra flokka vegakerfisins, í flestum tilfellum ofan á héraðs- og landsvegi. Að skilgreina og skipuleggja ákveðna leið sem ferðamannaveg er jafngildi þess að gefa „vottun“ og viðurkenna eftirsóknarverða eiginleika á viðkomandi leið.

Með skipulagi og sérstökum framkvæmdum við ferðamannavegina er hægt að auka umferðaröryggi ferðamanna og bæta upplifun vegfarenda. Sú upphlifun ferðamannsins sem vegfaranda hefur síðan mikil áhrif á ímynd landsins sem ferðamannalands. Mikilvægt er að hafa í huga að erlendir ferðamenn sem kynnst hafa ferðamannavegum erlendis leita eftir sambærilegu fyrirkomulagi og hafa lært af reynslu að „ferðamannavegur“ er ákveðin staðfesting á að viðkomandi leið bjóði upp á skemmtilega upplifun.

Vegagerðin hefur takmarkað fjármagn til ráðstöfunar. Mikilvægt er að framkvæmdum sé forgangsraðað og sú forgangsröðun byggi á framtíðarsýn og skýrri stefnumótun. Sérstaða Íslands þarf síðan að felast í fjölbreytileika og mismunandi ástandi vega og slóða því mikilvægt er að íslenskir ferðamannavegir geti líka verið slóðir á hálendi þar sem ferðalag krefst sérútbúinna ökutækja og sérstakrar ökuleikni til að ferðast. Skilgreining slíkra vega þarf að liggja í upplýsingum og merkingum til ferðamanna sem hyggjast leggja leið sína inn á slíka vegi.

Skilgreining ákveðinna leiða og vega sem ferðamannavega felur í sér samráð við sveitarfélög og hagsmunaaðila ferðaþjónustu. Ávinningur getur skilað sér í gæðahönnun á umhverfi vegarins og í markvissara veghaldi.


Ávinningur sveitarfélaga

Umferð ferðamanna hefur verið tiltölulega óskipulögð um vegakerfi landsins. Vinsælir ferðamannastaðir eru auglýstir og kynntir í ferðahandbókum en lítil fræðsla eða samráð hefur verið um hvaða ferðamannaleiðir og vegir liggi vel við á milli þessara staða.

Uppbygging ferðaþjónustu í sveitum landsins byggir á umferð ferðamanna um vegi svæðisins. Á nokkrum af fjölförnustu ferðamannaleiðunum gæti verið ávinningur af því að létta á umferðinni og beina umferð ferðamanna frekar inn á aðra vegi þar sem minna er um þungaflutninga.

Fyrir mörg sveitarfélög felst mikill ávinningur í því ef hægt væri að tryggja betur aðkomuleiðir og aðgengi ferðamanna um svæðið. Aðstaða er oft engin á ferðamannastöðum eða mjög bágborin og rekstur slíkrar þjónustu oft í járnum. Aðbúnaður er lélegur og oft mikill skortur á upplýsingum. Þessir annmarkar eiga síðan stóran þátt í öðru vandamáli sem er átroðningur og skemmdir á gróðri og náttúru.

Skipulagi um legu og leiðarval ferðamannavega verður ekki komið á nema með góðu samstarfi sveitarfélaga og Vegagerðarinnar


Ávinningur ferðaþjónustu og ferðamanns

Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein og mikilvæg fyrir samfélagið. Vegakerfið er burðarás ferðaþjónustunnar og eðli þessarar atvinnugreinar þannig að ávinningur dreifist nokkuð jafnt um sveitir landsins.

Ávinningur af góðum ferðamannavegum gæti skilað sér til ferðaþjónustunnar eins og um væri að ræða gott kynningar- og markaðsátak. Ferðamannavegir geta verið nýtt aðdráttarafl og ný söluvara. Ferðamannastaðir og áfangastaðir eru settir í stærra samhengi og vel lukkaður ferðamannavegur getur verið kynning fyrir annan ferðamannaveg.

Ferðamaðurinn hefur val um að ferðast á skipulagðri leið og veit hvers má vænta. Ferðamenn gera vaxandi kröfur og mikil áhersla hefur verið á ýmsa gæðavottun eða einhverja staðfestingu á gæðum leiðarinnar. Ferðamannaleið eða ferðamannavegur gerir ferðamanninum kleift að upplifa ökuleiðina, umhverfið og áningarstaðinn sem hluta af einni heildarmynd. Umferðaröryggi eykst á ferðamannaveginum þar sem hönnun vegarins tekur sérstaklega á þörfum ferðamannsins sem vegfaranda og mælanlegur ávinningur getur verið í lægri slysatölum. Jákvæð upplifun ferðamannsins hefur áhrif á ímynd landsins sem ferðamannalands.