15. janúar 2016

Nýtt aðalskipulag Keflavíkurflugvallar lagt fram

Gert er ráð fyrir að ný norður-suður flugbraut sem leggja þarf á Keflavíkurflugvelli á næstu 15 árum muni tvöfalda afkastagetu flugvallarins og að ráðist verði í stórfellda uppbyggingu á þjónustsvæðum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýju aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar til ársins 2030 sem lagt var fram til kynningar 12. janúar síðast liðinn. Frestur til að gera athugasemdir við skipulagið er sex vikur en að þeim tíma liðnum fá skipulagsyfirvöld aðrar sex vikur til að bregðast við athugasemdum. Komi ekkert óvænt upp á ætti nýtt aðalskipulag fyrir Keflavíkurflugvöll því að liggja fyrir í maí næstkomandi. Þetta er fyrsta aðalskipulag flugvallarins þar sem farþegaflug er skilgreint sem aðalhlutverk vallarins en það kemur í stað skipulags sem unnið var á tímum herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og sem tók mið af hagsmunum og þörfum hersins.

Framtíðarsýn um uppbyggingu

Aðalskipulagið er unnið af VSÓ Ráðgjöf og Glámu Kím arkitektum fyrir Isavia, Landhelgisgæsluna og skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar. Stefán Gunnar Thors hjá VSÓ og Sigurbjörn Kjartansson hjá Glámu Kím hafa stýrt verkefninu í samvinnu við skipulagsfulltrúa Keflavíkurflugvallar frá því vinna við gerð aðalskipulagsins hófst 2011. Markmið aðalskipulagsins er að móta framtíðarsýn um nýtingu lands og uppbyggingu flugvallarins og að skapa gott þjónustuumhverfi fyrir notendur. Veigamestu breytingar í nýja skipulaginu eru að sögn Stefáns Gunnars breytt lega framtíðarflugbrauta sem opnar fyrir landnotkun norðan flugstöðvar sem ekki var mögulegt í eldra skipulagi. Þá gerir skipulagið ráð fyrir mikilli uppbyggingu á þjónustusvæði flugstöðvarinnar og meiri sveigjanleika því ekki verður lengur bundið í aðalskipulag hvar einstaka starfsemi skal fyrirkomið á flugvallarsvæðinu.

Stóraukin umsvif

Stærð flugþjónustusvæðisins við flugstöðina er um 300 hektarar og skv. skipulaginu eru byggingarheimildir innan þess rúmar og hugsaðar til lengri tíma en sjálft aðalskipulagið. Gert er ráð fyrir að hægt verði að rúmlega 10 falda núverandi byggingarmagn á svæðinu úr 95.170 fermetrum í allt að 1100 þúsund fermetra. Óvíst er um hraða uppbyggingarinnar og ljóst að flugþjónustusvæðin verða ekki fullbyggð á skipulagstímabilinu. Þannig er gert ráð fyrir að flugstöðin sem var um 61 þúsund fermetrar árið 2013 geti orðið allt að 205 þúsund fermetrar að stærð árið 2040.
Stefán Gunnar segir að það hafi haft töluverð áhrif á skipulagsvinnuna að á sama tíma og hún stóð yfir jókst umferð um Keflavíkurflugvöll til mikilla muna . Árið 2011 fóru tæplega 2,5 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll en árið 2014 var þessi tala komin í 4,1 milljón farþega. Framan af gerðu áætlanir ráð fyrir að árið 2030 yrði farþegafjöldinn um Keflavíkurflugvöll komin í 6 milljónir en þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar spáir því nú að árið 2030 muni um 10 milljónir farþega leggja leið sína um völlin á ári

Nýjar flugbrautir

„Í fyrstu voru menn tiltölulega rólegir því það var fátt sem benti til að það þyrfti að byggja nýja flugbraut fyrr en 2030. Með stóraukinni flugumferð hefur þessi þörf hins vegar færst nær okkur í tíma. Núna bendir flest til að menn þurfi að vera tilbúnir með hönnun á nýrri braut að minnsta kosti árið 2025.“ Stefán Gunnar segir að áður en ráðist verði í gerð nýrra flugbrauta verði væntanlega farið í aðgerðir sem auki afkastagetu núverandi brauta sem meðal annars felist í gerði flýtireina og tengingu milli flugbrauta og taxi-kerfis. Þá bendir hann á að í dag séu sólarhringstoppar í umferð um völlinn, snemma morguns og um miðjan dag. Með því að dreifa álaginu yfir sólarhringinn megi nýta völlinn betur.

Nýja aðalskipulagið felur í sér breytingar á framtíðar brautarkerfi flugvallarins. Í dag fer flugumferðin um tvær meginbrautir sem nú eru í notkun. Langmest umferð eða 68% fer um norður-suðurbraut (02-20) en 32% um austur- vesturbraut (11-29). Í stað brautar sem gert var ráð fyrir að bættist við norðvestan við flugstöðina verður bætt við nýrri norður – suðurbraut en útreikningar sýna að hún geti tvöfaldað afkastagetu flugvallarins. Þá verður bætt við Norðvestur-suðvestur braut sem mun liggja á milli brautarenda nýrrar og núverandi norður-suðurbrautar.

Samráð við hagsmunaaðila

Stefán Gunnar segir að mikið samráð hafi verið við hagsmunaaðila í öllu skipulagsferlinu og því geri hann síður ráð fyrir miklum athugasemdum nú á lokametrunum. Byrjað var að ræða við helstu notendur um verkefnislýsinguna strax á fyrstu stigum í júní 2011. Síðan var farið í þarfagreiningu og samanburð á valkostum flugbrautanna í maí 2012 og í framhaldinu voru áherslur skipulagsvinnunnar og helstu leiðarljós kynnt um mitt ár 2012. Á árinu 2015 var unnið að gerð þróunaráætlunar Keflavíkurflugvallar þar sem framtíðar uppbyggingu á svæðinu er áfangaskipt mun nákvæmar en í aðalskipulaginu. Í kjölfarið voru drög að nýju aðalskipulagi kynnt opinberlega og þá gafst öllum kostur á að gera athugasemdir. Aðalskipulagstillagan hefur tekið tillit til framkominni ábendinga og er nú lögð fram til formlegrar kynningar í 6 vikur, þar sem athugasemdarfrestur rennur út 23. febrúar.