20. júlí 2015

Hótel Sigló – nýtt hótel á Siglufirði

Nýlega var tekið í notkun nýtt hótel við smábátahöfnina á Siglufirði – Hótel Sigló.   VSÓ annaðist hönnun burðarvirkja og lagnakerfa hótelsins..

Hótelið sem er reist á uppfyllingu út í höfnina er 68 herbergi en þar af eru 3 svítur auk veitingasalar, barsvæðis og arinstofu með útsýni yfir höfnina. Enn er unnið að frágangi við útisvæði en þar verður heitur pottur og sauna þar sem gestir geta notið útsýnis yfir höfnina.

„Þetta var skemmtilegt verkefni en aðkoma VSÓ að því hófst 2013,“ segir Þorbergur Karlsson byggingarverkfræðingur og umsjónarmaður verksins. Hann segir VSÓ Ráðgjöf hafa komið að mörgum hótelbyggingum í gegnum tíðina allt frá því Hótel Saga var reist á sínum tíma og nefnir meðal annars hótel 1919, 101 hótel, Holiday Inn sem í dag heitir Grand Hótel og nýbygginguna við Hótel Borg.

Sigló Hótel er tveggja hæða timburhús á steyptum sökkli og er efri hæðin undir súð með snotrum kvistum. Arkitektarnir Sigríður Halldórsdóttir og Árni Friðriksson hjá ASK sáu um útlitshönnun hússins og Edda Ríkharðsdóttir aðstoðaði við innanhússhönnun.

Atli Örn Hafsteinsson byggingaverkfræðingur var einn þeirra sem kom að þessu verki fyrir VSÓ Ráðgjöf. Hann segir að verkefnið hafi verið áhugavert og nefnir sérstaklega útsjónarsemi byggingaraðilanna sem nýttu stóra skemmu á byggingarsvæðinu og gátu þar sinnt smíðunum í öllum veðrum.„ Á meðan verið var að steypa undirstöður og botnplötu var trésmíðavinna í fullum gangi í skemmunni. Síðan þegar veggir hótelsins höfðu verið reistir var hægt að hífa tilbúnar þakeiningar og kvisti beint yfir á hótelið. Það var hægt að vinna þetta nánast án tillits til veðurs sem getur verið æði rysjótt á veturna.“

Sigló Hótel var tekið formlega í notkun laugardaginn 18. júlí.